Guðrún Nielsen (f. 1951) vann fyrir nokkrum árum alþjóðlega skúlptúrsamkeppni um listaverk við inngang að New Greenham Park í Newbury í Bretlandi. Nýverið var verk hennar fullklárað og afhjúpað en það ber heitið Changes, eða Breytingar (1998-2010). Heitið vísar til sögu svæðisins þar sem verkið stendur en þar var áður umdeild herstöð breska flugherisins. Fram að síðari heimsstyrjöld var þarna um slóðir friðsælt ræktarland en í stríðinu var byggður herflugvöllur sem síðan þjónaði hernum og voru þar m.a. geymd kjarnorkuvopn á níunda áratuginum. Herstöðinni var lokað árið1993 og hefur svæðið síðan breytt um svip og þjónar nú íbúum sem útivistarsvæði auk þess sem þar er blómlegur iðn- og tæknigarður. Verk Guðrúnar samanstendur af röð níu steinstöpla og á þeim hvíla stálplötur sem brotnar eru saman eins og origami. Formin eru einföld og geometrísk á hvorum enda raðarinnar en verða flóknari þegar nær dregur miðju verksins þar sem á einum stöpli má sjá greinilega eftirmynd herþotu. Eins og skutla sem er brotin saman úr pappír og leyst í sundur á ný. Guðrún vísar ennfremur til sögunnar með því að nota í stöplana mulið efni úr gömlu flugbrautinni sem þarna var. Verkið er leikur að andstæðum þar sem listakonan teflir fram þunglamalegum efnum sem jafnframt sýna umskipti og framvindu á lifandi hátt. Þannig vísar hún til þeirrar staðreyndar að allt getur breyst, jafnvel það sem á einhverjum tíma virðist óhagganlegt eins og þvergirðingsleg stefna yfirvalda að geyma kjarnavopn í herstöðinni þrátt fyrir mikla andstöðu. Þau mótmæli hafa verið skráð á spjöld sögunnar og má rekja til hóps kvenna sem barðist fyrir lífi á jörð og gegn kjarnavopnum. Fagurfræði Guðrúnar nýtur sín í þessum stóra skúlptúr en í verkum hennar má greina áhrif frá japönskum efnum og formum jafnframt því sem hún byggir á bakgrunni sínum í rannsóknum á tengslum myndlistar og byggingarlistar. Verkin sem hún sýnir gjarnan í opinberu rými eru þannig úr garði gerð að áhorfendur geta virt þau fyrir sér úr fjarlægð en einnig gengið inn í þau og upplifað þannig á annan hátt. Changes mun standa um ókomna tíð sem minnisvarði um óstöðvandi framrás tímans en jafnfram vísa til hringrásar og endurtekningar sögunnar.